top of page
  • Instagram
  • Facebook
Search

Klámvandi eða klámfíkn?

Updated: Mar 8, 2024

ree

Í langan tíma hefur mig langar að skrifa um þessa einföldu en hlöðnu spurningu: klámvandi eða klámfíkn?


Áður en þú heldur áfram að lesa langar mig að benda á að á forsíðunni er að finna ýmsar upplýsingar um dáleiðslu og mína þjónustu - ég hvet þig til að skoða það einnig!


Það er samt svo erfitt að orða spurninguna nákvæmlega en allt frá því að ég byrjaði að kafa í þessi fræði, lesa rannsóknir, greinar, bækur og efni frá mismunandi aðilum, fór ég að taka sífellt meira eftir því að umræðan um klámnotkun sem vandamál hefur verið gríðarlega einföld og alltaf bundin við þetta hugtak - klámfíkn.


Skilgreining mín á klámvanda er þannig að um sé að ræða þrálátt mynstur stjórnlausrar, ákafrar og ítrekaðrar notkunar á klámi þrátt fyrir umtalsverða vanlíðan og hamlandi áhrif á margvíslega þætti daglegs lífs, eins og truflanir á samböndum eða vinnu.


Ég notaði þessa skilgreiningu í BS ritgerðinni minni en eftir á að hyggja mætti alveg setja spurningamerki við hvort þetta þurfi að vera áköf og ítrekuð notkun. Ég fer aðeins yfir það að neðan.


Ástæða þess að ég, og margir aðrir fræðimenn erlendis, nota ekki fíknihugtakið í þessu samhengi er að fyrst og síðast hefur fræðasamfélagið ekki samþykkt að um sé að ræða fíkn eins og hún er skilgreind í sjúkdómafræðum. Í mjög einfölduðu og stuttu máli hefur ekki verið fallist á það að kynlíf og klámnotkun sem valdi einstaklingi vandræðum geti talist fíkn, þrátt fyrir það að ýmis einkenni slíkra vandræða séu keimlík fíknihegðun. Markmiðið hér er ekki að rökstyðja þetta en þó er rétt að nefna að í ICD-11 (evrópska flokkunarkerfi sjúkdóma) en þar ef flokkur fyrir vana- og hvataraskanir þar sem áráttukennd kynferðishegðunarröskun hefur verið skilgreind. Undir þann flokk getur klámvandi fallið. Eftir sem áður er ekki verið að kalla þetta fíkn. Bandaríska flokkunarkerfið, DSM hefur aftur á móti alfarið hafnað því að taka upp sambærilega flokka.


En ... hvað erum við þá að tala um? Hvað er klámvandi ef ekki fíkn?


Eitt af því áhugaverðasta við klámvanda er að hann er svo afstæður vegna þess að það þarf alls ekki að vera klámvandi þó að einstaklingur horfi á og noti mikið klám. Það má alveg vera að notkunin sé dagleg, jafnvel oft á dag en valdi notandanum engum vandræðum, hann upplifir enga skömm og það hefur engin áhrif á líf hans. Hins vegar gæti annar einstaklingur notað klám af og til í stuttan tíma og hann upplifir það sem raunverulegt vandamál, hann upplifir skömm, vanlíðan og ætlar aldrei að gera það aftur.


Vegna þessa hefur verið lögð fram lítillega flóknari skilgreining sem er sjálfsupplifaður klámvandi sem felur í sér klámvanda óháð því að hlutlæg skilyrði séu uppfyllt en sum þeirra eru talin upp hér að neðan. Slíkur klámvandi er alfarið persónulegur og hann getur byggt á ýmis konar þáttum. Til að mynda geta þættir eins og trúarbrögð, uppeldi, siðferðiskennd og annað í þeim dúr haft bein áhrif á sjálfsupplifaðan klámvanda. Þá er talað um siðferðislegt misræmi en í því felst að meðal annars siðferðiskennd einstaklingsins ræður því hvort hann upplifir vanda við klámnotkun eða ekki. Þá getur vandinn verið upplifaður ef viðkomandi finnst klám siðferðislega rangt en notar það samt sem áður. Vegna þessa er alveg spurning hvort þessi skilgreining mín um ákafa og ítrekaða notkun sé of þröng - þetta getur alveg verið mild notkun af og til en samt valdið vanlíðan og einstaklingurinn upplifir klámvanda.


Það sem ég hef þó sagt, og mér finnst svo mikilvægt að taka fram, að ef þú upplifir þig eiga í erfiðleikum með að hafa stjórn á klámnotkun, vilt draga úr henni eða hætta henni, þá þarftu ekki að kalla þig klámfíkil. Fíknihugtakinu fylgir ákveðinn pakki og það eru ekkert endilega allir sammála því að vera fíklar þó þeir viðurkenni fúslega að eiga við vanda að stríða eða í það minnsta mætti hegðunin vera öðruvísi.


Ef þú telur þig hugsanlega eiga við klámvanda að stríða þá vil ég endilega heyra frá þér.


Klámvandi kann að vera til staðar ef:

  • Þú ert oft sein/nn til vinnu eða skóla vegna þess að þú gast ekki hætt að horfa á klám og koma þér af stað.

  • Þú mætir ekki til vinnu eða skóla og hringir inn veikindi vegna þess að þú vilt frekar horfa á klám.

  • Þú ert sífellt að forðast félagslegar aðstæður með vinum vegna þess að þú vilt eyða tímanum í klám.

  • Þú skipuleggur daginn þinn þannig að þú getir horft á klám í einrúmi.

  • Klám er þín helsta leið til þess að kljást við tilfinningar; þú notar klám þegar þú upplifir sorg, leiða, kvíða, streitu, hamingju, óvissu o.s.frv.

  • Þú vilt stöðugt frekar horfa á klám frekar en að stunda kynlíf með maka eða bólfélaga og að því marki að þér finnst óþægilegt að stunda kynlíf með viðkomandi.

  • Þú upplifir pirring ef viðvera maka eða bólfélaga kemur í veg fyrir að þú horfir á klám.

  • Þú veldur eimslum á kynfærum vegna of mikillar eða harkalegrar sjálfsfróunar.

  • Þú þróar með þér kvíða gagnvart frammistöðu í kynlífi.

  • Þú þróar með þér kvíða gagnvart likamslögunar þinnar og typpastærðar (eða lögunar kynfæra kvenna)

  • Þú getur ekki stoppað þrátt fyrir umtalsverðar neikvæðra beinna afleiðinga af klámnotkun þinni.


Þá kann að vakna spurningin - hvernig kemur dáleiðslumeðferð inn í þessa blöndu?


Dáleiðslumeðferð felur í sér vinnu á bakvið tjöldin, í undirvitundinni. Þar eru gömlu forritin okkar geymd, ávani, tilfinningar, minningar og allt það sem við erum ekki að nota í meðvitundinni. Ef þú ert að lesa þetta vegna forvitni um aðstoð með klámvanda þá langar mig að spyrja að þessu: kannast þú við að hafa sagt við sjálfa/n þig eftir síðasta skipti sem þú notaðir klám að þú ætlaðir aldrei að gera þetta aftur...og þrátt fyrir það þá varstu komin í sömu spor jafnvel stuttu síðar eða daginn eftir? Upplifðir þú hálfgerða sjálfstýringu og varst með klám fyrir framan þig án þess að hafa ætlað að gera það?


Þarna er um að ræða stýringu frá undirvitundinni. Hún tekur stjórn, vill forða þér frá einhverju eins og tilfinningum eða aðstæðum og klámið er leiðin. Notkunin fer fram í tómarúmi þar sem er hvorki fortíð, nútíð né framtíð og undirvitundin stóð sig mjög vel í því að forða þér frá því sem steðjaði að.


Ég gæti haldið endalaust áfram að skrifa um þetta en læt þetta duga í bili. Meira síðar.


Ef þú last alla leið hingað þá þakka ég kærlega fyrir - vonandi var þetta upplýsandi og ef einhverjar spurningar vakna þá skaltu ekki hika við að hafa samband!



 
 
 

Comments


bottom of page