Klámvandi og Innri styrkur
- Egill Gylfason
- Dec 3, 2023
- 2 min read
Updated: Dec 4, 2023
Hvað er klámvandi? Þegar ég skrifaði BS ritgerðina mína í sálfræði skilgreindi ég þetta hugtak sem hafði ekki verið notað áður hérlendis. Hugtakið klámfíkn er hefur yfirleitt verið notað yfir þá sem eiga í vandræðum með klámnotkun en lengi vel hefur mér þótt þetta hugtak óþægilegt og ekki til þess fallið að hjálpa til við meðhöndlun vandans. Skilgreining mín byggir á því sem erlendis er kallað problematic pornography use og er hún svohljóðandi: Klámvanda má skilgreina sem svo að um sé að ræða þrálátt mynstur stjórnlausrar, ákafrar og ítrekaðrar notkunar á klámi þrátt fyrir umtalsverða vanlíðan og hamlandi áhrif á margvíslega þætti daglegs lífs, eins og truflanir á samböndum eða vinnu.
Markmiðið með því að notast við þetta hugtak er einfalt. Með því er ekki ætlunin að draga úr þeim vanda sem klámnotkun getur skapað heldur frekar að veita færi á því að einstaklingur sem upplifir að hann eigi við vanda að stríða en sé þó ekki tilbúinn til að kalla það fíkn, hafi hugtak til að notast við. Fyrir einhverja gæti fíknihugtakið orðið til þess að forðast að horfa í augu við vandamál ef það er stimplað sem fíkn vegna hugsanlegra fordóma gagnvart hugtakinu sem slíku. Enn fremur er þetta hugtak í takt við hugtök á ensku sem nú eru notuð við rannsóknir á klámvanda en þau eru til dæmis Problematic Porn Use (PPU), Problematic Use of Online Pornography (POPU) og Problematic Internet Pornography Use (IPU).
Hugtakið klámfíkn gefur af sér yfir 30.000 niðurstöður á Google en fram að birtingu ritgerðarinnar var ekkert um klámvanda. Það var, og er, mín persónulega skoðun að klámvandi nái mun betur utan um vandann, sérstaklega í ljósi þess að nýjustu fræði og sex-positive hugmyndafræði hafnar því í raun alfarið að klámnotkun geti talist fíknihegðun - meira um það síðar.
Í kjölfarið af þessari skilgreiningu minni hefur hugtakið öðlast líf og hafa kynfræðingar hérlendis byrjað að nota hugtakið sem er ánægjulegt.
Hjá Innri styrk er að finna mikla þekkingu á klámvanda og meðhöndlun hans. Á þessari síðu mun ég með tímanum birta meiri upplýsingar um klámvanda og þar með reyna að fjalla um hann sem ég tel nauðsynlegt.
Hjá mér er þó ekki aðeins að finna þekkingu á klámvanda heldur býð ég einnig upp á dáleiðslumeðferð þar sem þessum einföldu en kraftmiklu aðferðum er beitt til þess að uppræta vandann. Uppræting vandans getur þó verið af ýmsum toga. Það getur falist í því einu að losna við skömmina sem notkun kláms fylgir oft, draga úr notkuninni, breyta notkuninni og auðvitað hætta henni alfarið.
Algengt er að viðmótið gagnvart klámvanda sé að hann snúist um að horfa á og nota klám eða ekki. Málið er víðsfjarri því að vera svo einfalt enda er margsannað að það er ekki sjálfgefið að klámnotkun sé vandamál. Raunar er það svo að nóg er af fólki sem notar klám daglega, jafnvel oft á dag, en það upplifir engan vanda eins og þann sem ég vísa til. Sumir vilja jafnvel ekki gera annað en að minnka notkunina og til þess er hægt að beita dáleiðslumeðferð.
Ef þú eða einhver náinn þér á við klámvanda að stríða hvet ég þig til að hafa samband!
Smelltu á myndina til að hlusta á mig í Bítinu ræða ritgerðina.
Umfjöllun í fréttablaðinu








Comments