top of page
  • Instagram
  • Facebook
Search

Íþróttir og Dáleiðsla - Innri styrkur leystur úr læðingi

Allt frá því að ég fór að dýfa tánum í hina djúpu laug andlegrar meðferðar hefur mér verið ljóst að íþróttafólk er hópur sem mig langar að vinna með. Ég var þó ekki meðvitaður um að ég myndi enda sem dáleiðandi sem býður upp á dáleiðslumeðferð en þar er einmitt tenging við íþróttir sem ég persónulega var ekki meðvitaður um. Líklega vegna þess að það hefur einfaldlega aldrei verið talað um dáleiðslu fyrir íþróttafólk hérlendis eða að minnsta kosti ekki opinberlega þannig að maður yrði var við það.


Ég á góðan vin sem er sjúkraþjálfari en þegar hann var að hefja sinn feril sagði hann eitthvað við mig sem hefur alltaf hangið í hausnum á mér. Það var að hann vildi fyrst og fremst vinna með íþróttamönnum vegna þess að þeir hafa svo mikla hagsmuni af því að ná bata ef eitthvað er að. Þeir koma í sjúkraþjálfun, fá greiningu, fá æfingar og meðferð og vinna svo hörðum höndum að því að leysa málið. Þetta hefur mér alltaf þótt svo áhugavert.


Þarna erum við hins vegar að tala um líkamlega þáttinn hjá íþróttamönnum. Án hans er víst lítið hægt að gera þegar íþróttin krefst á einhvern hátt notkunar líkamans. En hvað með andlega þáttinn? Ef íþróttamaður er meiðslalaus og í frábæru formi og er kominn á efsta stig í tæknilegri getu en hann er ekki að afkasta eins og hann ætti miðað við þessa þætti þá eru góðar líkur á að eitthvað sé að halda aftur af honum þegar kemur að andlegu hliðinni. Því miður er þetta allt of algengt og ég persónulega hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar heyrt af íþróttamönnum sem eru þjakaðir af kvíða og þunglyndi sem ætti eðli málsins samkvæmt að hafa neikvæð áhrif á frammistöðu.


Andlegi þátturinn þarf þó ekki að vera á svo alvarlegu stigi til að það teljist nauðsynlegt að vinna að honum. Íþróttamaður sem á ekki við neina röskun að stríða getur haft mikið gagn af því að taka til í skúrnum og raða betur í hillurnar, svona ef við förum út í nokkuð frjálslega samlíkingu við hugann.


Til að afnema allan vafa þá er ég alls ekki eingöngu að tala um íþróttamenn á efsta stigi. Þetta getur átt við hverja einustu manneskju sem stundar íþrótt af einhvers konar kappi með það að markmiði að bæta sig á einn eða annan hátt. Allt frá því að vera atvinnumaður með fast sæti í landsliði til þeirra sem stunda íþrótt, taka kannski þátt í keppni af og til og vilja bæta árangur sinn. Það er alveg sama hvar stigið er niður fæti á þessum skala, andlegi þátturinn skiptir gríðarlega miklu máli.


En hvað á ég við nákvæmlega með andlegu hliðinni?


Persónulega hef ég stundað nokkurn fjölda íþrótta um ævina. Ég var í fótbolta sem barn, var keppnismaður í golfi í unglingaflokkum þar sem ég varð m.a. klúbbmeistari, spilaði körfubolta með Fylki og síðar Fjölni á unglingsárum, stundaði líkamsrækt mjög reglulega, var í CrossFit nokkuð lengi, hjólreiðar voru lengi hluti af því sem ég stundaði á sumrin og loks tók þríþrautin við og hefur átt hug minn síðastliðin ár ásamt því að sveifla og leika mér með ketilbjöllur. Það að stunda þríþraut er einmitt frábær leið til þess að plata sjálfan sig til þess að stunda fjölbreytta hreyfingu vegna þess að ef maður ætlar að stunda hana þá verður maður að hjóla, synda og hlaupa. Ég get því alveg sagt að ég hafi ágæta reynslu af íþróttum almennt, hvort sem það er aðeins til skemmtunar og heilsuræktar eða keppni.


Í hverri einustu íþrótt sem ég hef stundað hef ég orðið sæmilega góður. Aldrei framúrskarandi eða áberandi góður en hef alltaf átt auðvelt með að læra nýja hreyfingu og tileinka mér þá tækni sem þarf. Hins vegar er einn þáttur sem hefur aldrei verið til staðar hjá mér - það er hugarfarið sem þarf til þess að skara fram úr eða til þess að ná langt í íþróttinni. Það er eitthvað í andlegu hliðinni minni í íþróttum sem hefur stöðvað mig. Að því sögðu hef ég svo sem ekki heldur endilega viljað ná eitthvað langt í hverri íþrótt fyrir sig. Það hefur aldrei verið eitthvað sem mig langar að gera. Hins vegar eru ansi margir sem vilja ná langt, ná lengra og verða frábærir íþróttamenn eða í það minnsta betri og jafnvel miklu betri en þeir eru núna.


Á þessum íþróttaferli mínum hef ég séð ýmislegt sem hvetur til þessara skrifa en einnig það sem ég hef séð sem almennur áhugamaður um íþróttir og fagaðili á sviði andlegra málefna. Íþróttamenn geta verið óhugnalega hæfileikaríkir, kraftmiklir og skila inn vinnunni en ef andlega hliðin er ekki á réttum stað þá er ólíklegt að háleitum markmiðum verði náð. Hver hefur ekki heyrt um íþróttamann sem mistókst vegna þess að taugarnar fóru með hann? Hefur einhver spilað golf og upplifað að allt var í steik en það hafði ekkert með það sveifluna sem slíka að gera? Hugurinn réð för og hann var sko ekki til í að spila á pari! Ég hef svo sannarlega verið þar sjálfur. Minn ferill í keppnisgolfi var hraustlega litaður af slæmu hugarfari og óhóflegum pirring sem eyðilagði frammistöðuna.


Það að vera framúrskarandi íþróttamaður krefst þriggja atriða: líkamleg þjálfun, tæknileg þjálfun og andleg þjálfun.


Fjölmargir íþróttamenn eru með frábæra tækni og eru vel þjálfaðir en þeim tekst þó ekki endilega að ná fram sínu besta vegna þeim hefur ekki tekist jafn vel að þjálfa andlegu hliðina og þróa með sér nauðsynlegan andlegan styrk. Þessi andlegi styrkur er nauðsynlegur til þess að standast það álag sem fylgir keppnisíþróttum.


Þeir sem komast á toppinn eru oftast með þessa hlið íþróttarinnar á hreinu. Sumir halda aðferðunum fyrir sig vegna þess að þeir vilja ekki að andstæðingarnir njóti sama forskots eða þeir hafa áhyggjur af því hvernig viðhorfum þeir myndu mæta fyrir það að notfæra sér dáleiðslu, ímyndunaraflið (sjá sigurinn fyrir sér) eða aðra tækni sem gæti verið álitin óvenjuleg.


Hins vegar er það svo að fleiri og fleiri íþróttamenn á hæsta stigi hafa tjáð sig um hvaða aðferðir þeir nota til þess að komast í gegnum streituna sem fylgir keppni og hvernig þeir hafa þróað andlegan styrk.


Hér eru nokkur dæmi um íþróttafólk sem hefur náð á hæsta stig sinnar íþróttar og notast við dáleiðslu:

  • Tiger Woods (byrjaði að notfæra sér dáleiðslu 13 ára)

  • Michael Jordan

  • Kobe Bryant

  • Phil Jackson notaði dáleiðslu í þjálfun (þjálfari Chicago Bulls og L.A. Lakers og margfaldur NBA meistari sem slíkur)

  • Shaquille O'neal

  • David Beckham (notaði dáleiðslu til að komast í gegnum persónulegar aðstæður)

  • Jack Nicholas (goðsögn í golfinu fyrir þá sem ekki þekkja)

  • Árið 1956 tók rússneska ólympíuliðið 11 dáleiðendur með sér á leikana (unnu flest gull allra þjóða - 37 talsins)

  • Árið 1983 var hafnaboltaliðið Chicago Red Sox með dáleiðanda í fullu starfi hjá sér og unnu deildina það árið

  • ....og fleiri og fleiri


Hvað er það þá sem hægt er að gera með dáleiðslu fyrir íþróttafólk?


Þessi andlegi styrkur er ekki sjálfgefinn og það er sannarlega ekki þannig að þeir sem eru góðir í íþróttum búi endilega að besta hugarfarinu gagnvart íþróttinni og sjálfum sér. Efasemdir um eigin getu, ofmat á getu keppinauta samhliða vanmati á eigin getu, almennur kvíði gagnvart keppni og frammistöðu og margt fleira er eitthvað sem margir þekkja sem hafa stundað keppnisíþróttir. Dáleiðsla getur haft bein og hraðvirk áhrif á þessar hugsanir og þessar tilfinningar á þann veg að fá innri styrkinn með í lið. Það getur verið auðvelt að segja „ég get, ég ætla, ég skal" en ef hugsunin á bakvið er „kannski get ég, vonandi tekst mér, ég ætla að reyna" þá eru vissulega minni líkur á að markmiðið raungerist.


Með því að fá innri styrk og undirvitunina með í lið er hægt að taka þessa hugsun að baki og breyta henni þannig að öll vitund verði með í markmiðinu. Með því móti er hægt að taka tæknilega og líkamlega getu og nýta hana til fulls vegna þess að andlega hliðin er ekki að þvælast fyrir.


Dáleiðslumeðferð með þetta að markmiði byggist á mati þar sem styrkleikar og veikleikar eru metnir ásamt því að sjá nákvæmlega hvað það er sem viðkomandi vill fá út úr sinni íþrótt eða hreyfingu. Hluti þessa mats er líka að bera kennsl á hvað það er sem gæti verið að tefja framfarir eða hindra alfarið. Þetta getur jafnvel falist einfaldlega í því að losna við hugsanamynstur sem draga úr afköstum. Eitt slíkt dæmi væri sundmaður sem stendur í blokkinni, tilbúinn að stinga sér og það eina sem hann er að hugsa er hvað allir hinir eru hraðir í vatninu. Er hann líklegur til sigurs?


Með dáleiðslumeðferðinni öðlast viðkomandi jafnframt getuna til þess að hafa áhrif á sinn innri styrk sjálfur. Með því að nálgast undirvitundina og sjá hvað er hægt að hafa áhrif á verður hann færari um að hafa þessi áhrif sjálfur, bera kennsl á hvað það er sem má fara betur í hugarfari og einfaldlega breyta því. Íþróttamaðurinn yrði nokkurs konar eigin innri þjálfari. Það er nefnilega ansi mikill lærdómur fólginn í því að geta borið kennsl á neikvætt hugarfar þegar það kemur upp því þá er tækifæri til að grípa inn í.


Það væri svo sannarlega skemmtilegt ef við færum að heyra af fremstu íþróttamönnum Íslands sem færu reglulega til dáleiðanda. Væri ekki líka áhugavert að stóru liðin væru með einn slíkan í liðsteyminu? Þar væru þjálfarar, sjúkraþjálfarar, styrktarþjálfarar og svo dáleiðandi. Það væri ansi myndarlegur heildarpakki!

 
 
 

Comments


bottom of page