top of page
  • Instagram
  • Facebook
Search

Klámnotkun og klámvandi - Niðurstöður úr könnun

Eins og ég hef sagt frá á þessari síðu skrifaði ég lokaritgerð í BS námi mínu sálfræði sem bar heitið Klámvandi - Falinn vandi sem enga athygli fær. Með ritgerðinni og birtingu hennar er þó sannarlega hægt að segja að vandinn varð í það minnsta minna falinn og fékk talsverða athygli. Ég segi það sennilega aldrei nógu oft að þetta er eitthvað sem flestir vita af en eiginlega enginn talar um.


Ástæðan fyrir því að ég nefni ritgerðina hér er að hún fjallaði meðal annars um birtingu á niðurstöðum úr könnun sem ég framkvæmdi en hún var eingöngu send á háskólanema, þ.e. alla nemendur Háskóla Íslands og nemendur í BS námi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Úr varð að ég fékk 666 svör sem gaf mér þokkalegt öryggi um að niðurstöðurnar væru áreiðanlegar. Var þetta í fyrsta og til eina skiptið sem könnun á klámnotkun fullorðinna hefur verið framkvæmd á Íslandi og þá sérstaklega með tilliti til hvers kyns vandamála sem tengjast notkuninni. Þrátt fyrir að ég hafi sveigt af brautinni hvað varðar feril í sálfræði sem fræðigrein þá er engin spurning um að ég er mjög áhugasamur um rannsóknir og kannanir á þessu efni enda ákaflega erfitt að nálgast upplýsingar um þessa hegðun fólks með öðrum hætti svo hægt sé að draga ályktanir um almenna hegðun.


Undanfarin misseri hef ég gengið um með þá hugmynd í hausnum að finna leið til að gera sambærilega könnun á öðrum hópum. Eins og fram kemur hér á þessari síðu þá einbeiti ég mér fyrst og fremst að vinnu með karlmönnum en fyrir því eru ýmsar ástæður sem ég ætla ekki að fjalla um hér. Rétt fyrir jól fékk ég svo hugmynd þegar ég var að vafra á Facebook og áttaði mig á að ég væri meðlimur í hóp þar sem eru eingöngu karlmenn og í flestum tilfellum feður. Um er að ræða hópinn Pabbatips en þar koma saman þúsundir feðra á Íslandi og deila hinum ýmsu hugmyndum, leita ráða og tjá skoðanir. Þetta hlaut bara að vera hinn ágætasti vettvangur til að framkvæma könnunina! Ég ákvað því að slá til og birti hana rétt fyrir jól inni á hópnum og vonaðist eftir miklum fjölda svara. Þrátt fyrir að hópinn skipa yfir 16.000 meðlimir eru svörin aðeins orðin 167 talsins en það ætti að duga til þess að draga þá ályktun að niðurstöður sýni sæmilega hvernig staðan er í almennu þýði.


Nóg spjall - Hér eru niðurstöðurnar:


Aldur:

ree

Þarna fékk ég þessa stórfínu normalkúrfu en það kemur kannski ekkert á óvart hvernig aldursdreifingin var.


Hefur þú horft á klám?

ree

Satt að setja kom þetta mér nokkuð á óvart. Aðeins 1 þátttakandi hefur ekki horft á klám. Í könnuninni sem ég gerði meðal háskólanema voru það 8,7% þáttakenda. Hópurinn var þó töluvert yngri sem kann að hafa áhrif.


Hversu algengt er að þú horfir á klám?

ree

Hér sést að mikill meirihluti þátttakenda horfa á klám 4 sinnum eða sjaldnar í viku.


Horfir þú á klám í einrúmi eða með einhverjum?

ree

Það kom ekkert sérstaklega á óvart að meirihlutinn horfi á klám í einrúmi en þó er gaman að sjá hvað margir gera það líka með maka eða félaga.


Gerir þú einhvern greinarmun á uppruna eða innihaldi kláms með tilliti til siðferðislegra álitamála? T.d. frá hvaða vefsíðu, framleiðanda eða annað

ree

Ég er svo ánægður með að hafa fengið þá hugmynd að spyrja að þessu á sínum tíma og það kom skemmtilega á óvart hversu hátt hlutfall (29%) gerði ráðstafanir gagnvart efninu sem horft var á. Hópurinn sem svaraði þar var yngri og fólk í háskólanámi og persónulega taldi ég að hlutfallið hér yrði talsvert lægra. Gaman að hafa rangt fyrir sér í þessu tilfelli! Algengast er að forðast sé efni sem sýni eða gefi til kynna ofbeldi, að fólk sé þátttakandi gegn vilja eða álíka aðstæður. Margir nefna að þeir leitist í efni sem er framleitt af konum þar sem er viðleitni til að leikarar séu þar af fúsum og frjálsum vilja og það sé komið vel fram við þá. Vonandi fer þetta hlutfall hækkandi með tímanum.


Hefur þú átt erfitt með að hafa stjórn á þinni klámnotkun, eða veldur það annars konar truflunum á daglegu lífi?

ree

Jæja, þá erum við að nálgast klámvandann sem slíkan. Þetta hlutfall er aðeins hærra en á meðal háskólanemanna en aftur, það tengist trúlega frekar hærri aldri og að hér eru eingöngu karlmenn að svara (þeir eru mun líklegri til að eiga við klámvanda að stríða samkvæmt rannsóknum). Engu að síður er þetta nokkur fjöldi og ef við heimfærum þetta hlutfall á stærra úrtak karlmanna þá erum við farin að horfa upp á ansi stóran hóp!


Hefur þú gert tilraunir til að takmarka notkun á klámi eða hætta því alveg?

ree

Hlutfall þeirra sem hafa gert slíkar tilraunir í þessari könnun er mjög svipað og því sem var meðal háskólanema (35,8%) sem veitir mér nokkuð öryggi um að þessi niðurstaða endurspegli raunveruleikann. Í öllu falli erum við aftur að tala um stóran hóp sem hefur reynt að hafa áhrif á klámnotkun sína. En hvernig hefur þeim gengið?


Hvernig tókst þér að draga úr klámnotkuninni?

ree

Ég hefði kannski getað orðað fyrsta valkostinn betur en ,,Vel hætti alveg" gæti verið villandi. Hætti alveg notkun eða hvað? Jæja, það eru allavega 38% sem gátu gert breytingar sem er gott. Hins vegar eru yfir 4% þar sem notkunin stóð í stað eða jókst. Við vitum þó ekkert hvort sú notkun feli í sér klámvanda enda alls óvíst að notkunin valdi viðkomandi vandræðum. Að vísu er það ákveðin vísbending að viðkomandi hafi reynt að draga úr notkuninni.


Næsta spurning er þó sú spurning sem ætti að gefa mest til kynna að klámvandi sé viðvarandi.


Hversu sammála eða ósammála ertu eftirfarandi fullyrðingu: Klámnotkunin mín er of mikil og hefur neikvæð áhrif á mig, ég þarf aðstoð.

ree

Hlutfall þátttakenda sem telja klámnotkun sína vera of mikla og hafi neikvæð áhrif er rétt innan við 10%, þar af rúmlega 4% sem eru mjög sammála. Vissulega eru þetta ekki mjög margir í þessari könnun en ef við yfirfærum þessi hlutföll á alla karlmenn á aldrinum 18-50+ þá erum við að tala um býsna stóran hóp.


Hefur einhver nákominn þér, t.d. maki, vinur eða ættingi, orðið var við og nefnt við þig að klámnotkun gæti verið vandamál hjá þér?

ree

Hérna átti ég eiginlega von á fleiri Já-um en þetta gefur vonandi til kynna að klámnotkunin sé ekki að hafa neikvæð áhrif á sambönd.


Næsta og jafnframt síðasta spurningin finnst mér mjög áhugaverð. Ég hef áður sagt að hérlendis er afskaplega takmarkað aðgengi að meðferðaraðilum sem gefa sig út fyrir að bjóða upp á aðstoð vegna klámvanda og ég veit ekki til þess að neinn taki það sérstaklega fram (ég er líklega sá fyrsti?).


Hefur þú leitað aðstoðar vegna klámnotkunar? T.d. hjá sálfræðingi, geðlækni eða öðrum ráðgjöfum.

ree

Aðeins 1 já-svar en nokkuð fleiri sem hafa íhugað að leita aðstoðar. Ég hefði líklega átt að bæta við spurningu um það hvaða aðila viðkomandi myndu leita til, hvort það væri einhver ákveðinn eða hvort það væri hreinlega ekki vitað. Þetta eru jafnframt svipaðar tölur og ég fékk frá háskólanemunum.


Ef þú ert enn að lesa - takk fyrir athyglina! Ég vona að þetta hafi verið upplýsandi og fræðandi en persónulega finnst mér þetta gríðarlega áhugavert. Þessar niðurstöður veita mér og öðrum mjög áhugaverða innsýn inn í klámnotkun og mögulegan klámvanda sem, eins og ég sagði að ofan, er erfitt að átta sig almennilega á. Þess má líka geta að niðurstöðurnar hér innihalda ekki neins konar magnbundnar tölur aðrar en fjölda skipta í viku sem horft er á klám. Þetta tengist því að klámvandi er afstæður en þó hafa rannsóknir sýnt fram á að upplifaður klámvandi helst yfirleitt í hendur við mikla og ítrekaða notkun.


Það væri gaman að keyra þessa könnun á enn stærri hóp og þá ekki endilega aðeins karlmönnum. Mér þætti ofsalega áhugavert að ná yfir 1.000 þáttakendum til þess að geta dregið almennilegar ályktanir.


Aftur, ef athyglin er ennþá til staðar þætti mér áhugavert að heyra skoðanir og athugasemdir við þessa könnun. Niðurstöðurnar eru áhugaverðar en þær eru auðvitað ekki fullkomnar en gefa okkur einhverja mynd af stöðunni og eins og á svo oft við um rannsóknir - gefur tilefni til frekari rannsókna.


Ef þú eða nákominn á við klámvanda að stríða hvet ég þig til að hafa samband og það er engin skuldbinding fólgin í því að heyra í mér.

 
 
 

Comments


bottom of page