top of page
  • Instagram
  • Facebook
Search

Afhverju klámvandi og dáleiðsla? - Viðtal í Bítinu

Updated: Jan 24, 2024

Einmitt, afhverju? Lífið einfaldlega fór með mig þangað.


Nýlega brá fyrir rödd minni í Bítinu á Bylgjunni í viðtali [það er hérna neðst ef þú vilt hlusta strax] þar sem ég ræddi við morgunteymið um klámvandann og dáleiðslu. Þar opnaði ég einnig á að klámvandinn er mér svo hugleikinn af því að þetta er eitthvað sem ég þekki persónulega. Þegar ég leitaði mér aðstoðar var úrvalið býsna lítið. Hér var ekki að finna nokkurn einasta aðila sem gaf sig sérstaklega út fyrir að vinna með þennan vanda, né heldur var fjallað um þetta að nokkru ráði. Eins og ég hef oft komið inn á - umfjöllun um klámnotkun á Íslandi er afvegaleidd og einstrengingsleg. Hún snýr ávallt að börnunum og hvenær þau byrja að horfa að meðaltali og svo hvort þau horfi reglulega á klám. En hvað svo? Ekki neitt, nákvæmlega ekkert.


Víða erlendis er talsvert úrval af meðferðaraðilum og ráðgjöfum fyrir þennan tiltekna vanda en hérlendis var enginn. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á þessu en að lokum kynntist ég sálfræðing með mikla þekkingu og reynslu af kynferðismálum, hinsegin sálfræði en hún er kynfræðingur líka. Hún hjálpaði mér með margt en fyrir mig var sálfræðimeðferð ekki að veita mér það sem mig vantaði. Þetta er auðvitað ekki neins konar áfellisdómur á sálfræðimeðferð, hún bara virkaði ekki fyrir mig. Að sama skapi hef ég kynnst mörgum sem hafa svipaða sögu að segja, þ.e. að sálfræðimeðferð hafi verið ágæt en hún hafi ekki skilað þeirri útkomu sem vonast var eftir.


En hvernig hófst þetta?


Vorið 2019 var ég á lokametrunum í MBA námi við Háskólann í Reykjavík en þar er á ferðinni magnað nám sem kennir svo miklu meira en það sem bækur færa manni. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að skrifa um það en ég man þó skýrt eftir augnablikinu þegar ég tók ákvörðun sem myndi gjörbreyta því hvert ég fór í lífinu. Ákvörðunin var tekin í fyrirlestri í námskeiði um frumkvöðlafræði sem Magnús Orri Schram stýrði. Þangað kom nokkur hópur frumkvöðla á Íslandi og eins klisjukennt og það er þá veitti þetta mér ótrúlegan hvata og ákvörðunin lá fyrir allt í einu. Ég ákvað að gerast sálfræðingur og verða sá aðili sem mér fannst vanta á markaðinn. Svo má spóla hraustlega áfram og ég er ekki sálfræðingur en ég er hins vegar að leggja mig fram við að vera þessi aðili. Með dáleiðsluaðferðir að vopni er ég orðinn meðferðaraðili og mitt helsta verkefni er að aðstoða karlmenn við að kljást við klámvanda - sama hver tilætluð útkoma er. Það er nefnilega svo áhugavert við klámvandann [að mínu mati] að lausnin er ekkert endilega að notkun skuli hætta alfarið. Lausnin gæti þess vegna verið að brjótast undan skömminni og vera frjáls frá henni. Eins gæti lausnin verið að notkunin sé einungis með maka sínum en ekki í einrúmi. Þetta má vera allskonar.


Eitt af mínum aðalmarkmiðum með Innri styrk er að vera aðilinn sem þú leitar til ef klámvandinn er að hrjá þig eða einhvern nákominn þér.


Ég notast við dáleiðslumeðferð til að kljást við vandann en í stuttu máli fáum við undirvitundina með okkur í lið til þess að ráðast á rót vandans, uppræta hana og halda áfram inn í framtíðina án þess að burðast með vandann. Einn stór liður í því að kljást við klámvanda er að horfast í augu við skömmina og losna undan henni en hún getur verið sannarlega erfið. Það er svo erfitt að vera aleinn með þessa skömm og segja engum frá. Þess vegna er nauðsynlegt að geta rætt um þetta við aðila sem skilur, þekkir málefnið inn og út, sýnir algjöran skilning og umburðarlyndi ásamt því að geta aðstoðað.


Jafnframt skiptir mig miklu máli að taka fram að það sem ég er að gera snýst ekki eingöngu um klámvanda heldur það getur verið hvað sem er. Hvort sem það er almenn sjálfstyrking, kvíði, þyngdarstjórnun og jafnvel að bæta frammistöðu í íþróttum - þetta er allt eitthvað sem ég vinn með. Klámvandinn er bara það sem ég vil helst halda á lofti til þess að gefa pláss fyrir þá sem vilja aðstoð með hann. Ég veit ekki til þess að nokkur einasti aðili gefi sig út fyrir að vinna sérstaklega með þetta málefni en endilega leiðréttið mig ef ég er með rangt mál. Það væri gaman að geta rætt við aðra sem huga að þessu.


Allavega, þetta var ekki í fyrsta skipti sem ég heimsótti Bítið en þau höfðu samband við mig þegar BS ritgerðin mín kom út vorið 2022. Leiðbeinandinn minn hafði nefnt áður að líklega myndi þessi ritgerð vekja athygli en ég átti seint von á símtali frá útvarpsstöð morguninn eftir að ég sendi ritgerðina inn til birtingar. Það var mikill heiður og sannarlega þörf á að tala um þetta málefni.


Síðan þá hefur mikið gerst og þá sérstaklega stofnun Innri styrks og þessi frábæra vegferð dáleiðslumeðferðar hjá mér. Þetta er bara byrjunin!


Hér má hlusta á mig ræða við Lilu og Heimi um klámvandann ásamt dáleiðslumeðferð til þess að kljást við hann ásamt öðru.


Smelltu á myndina til að hlusta á viðtalið



Ef þú eða einhver sem þú þekkir á við klámvanda, eða önnur vandamál, að stríða og langar að kanna möguleika dáleiðslunnar skaltu endilega hafa samband við mig í gegnum síðuna, með tölvupósti á innristyrkur@innristyrkur.is eða í síma 824-1115.


 
 
 

Comments


bottom of page